Streitan kemur fram þegar líkamlegt og andlegt jafnvægi okkar raskast af hugrænum, líffræðilegum eða ytri aðstæðum. Langvarandi streita sem losnar ekki um með þeim aðferðum sem við höfum áður getað nýtt okkur getur leitt til veikinda, kvíða eða depurðar.
Rannsóknarmennirnir Robert Yekes og JD Dodson gáfu út grein árið 1908 sem lýsti Yerkes-Dodson lögmálinu. Þetta lögmál segir að eftir því sem að álagið á okkur eykst því meira náum við að afkasta, en aðeins upp að ákveðnu marki. Eftir að búið er að fara yfir ákveðin mörk þá byrja afköstin að dvína eftir því sem álagið eykst ennfrekar. Jákvæða streitan kemur okkur sem sagt af stað en ef álagið heldur endalaust áfram og við náum ekki að skapa okkur rými til að endurnýja orkuna þá getur það haft alvarlegar afleiðingar.
Til að skoða þetta jafnvægi varðandi álag þurfum við að skoða nánar samband milli tveggja taugakerfa út frá líffræðilegu sjónarmiði, annars vegar sympatíska taugakerfinu og hins vegar parasympatíska taugakerfinu.
Sympatíska kerfið er nokkurs konar neyðarkerfi og starfsemi þess eykst við álag og ógn með því að auka meðal annars hjártslátt og blóðþrýsting, losa svita og víkka sjáöldrin. Þetta kerfi bregst meðal annars við þegar við verðum fyrir óvæntum atburðum sem þarfnast snöggra viðbragða eins og ef að ljón myndi birtast í skóginum og við myndum þurfa að nýta allt sem við gætum til að forða okkur. Oft köllum við þetta viðbragð “fight or flight” eða “berjast eða flýja”
Parasympatíska kerfið hefur hins vegar mest áhrif á líkamann þegar hann er í hvíld með því að hægja á hjartslætti og lækka blóðþrýsting. Þetta kerfi hjálpar til við að jafna sig eftir að ógnin er liðin hjá. Segja má að sympatíska kerfið sé bensínið okkar meðan parasympatíska kerfið er nokkurs konar bremsa.
Sympatíska kerfið kemur okkur að góðum notum þegar við þurfum á því að halda þegar ógn steðjar að okkur eða við þurfum að takast á við erfiðar aðstæður í einhvern tíma. En aftur á móti er það farið að vinna gegn okkur þegar það er búið að vera í gangi í allt of langan tíma.
Langvarandi álag getur skapast í ýmsum aðstæðum, eins og við erfið veikindi bæði eigin veikindi og annarra fjölskyldumeðlima, við erfiðar uppeldisaðstæður, áföll á lífsleiðinn , álag í vinnu eða aðra langvarandi erfiðleika hvort sem er í æsku eða á fullorðinsárum.
Við þess konar langvarandi ástand er sympatíska kerfið í stöðugri spennu og alltaf tilbúið að takast á við ógnina. Börn sem til dæmis búa við erfiðar uppeldisaðstæður og mikið óöryggi eru oft með taugakerfi sem er alltaf á varðbergi og í stöðugri spennu. Þetta fylgir þeim svo inn í fullorðinsárin og getur orðið ástæða ýmissa sjúkdóma.
Afleiðingarnar af því að sympatíska taugakerfið er alltaf spennt eru margvíslegar eins og erfiðleikar með einbeitingu, erfiðleikar með að taka ákvarðanir og muna. Borið getur á mikilli þreytu, orkuleysi og ónæmiskerfið okkar skerðist. Við getum átt á hættu að fara að sjá heiminn sem ógn við okkur, hættum að gera það sem er hjálplegt fyrir okkur til að halda andlegu jafnvægi og hugsanlega finnum við fyrir uppgjöf. Í kjölfarið getum við upplifað svefnleysi, áhugaleysi, pirring, vonleysi, ýmsa líkamlega kvilla og að lokum örmögnun. Hér er líklegt að manneskjan sé auk þess farin að finna fyrir depurð, þunglyndi eða kvíða.
Hvað er til ráða?
Ef við lítum á sympatíska kerfið sem bensíngjöf líkamans og parasympatíska kerfið sem bremsuna þá er hægt með ýmsum aðferðum að virkja parasympatíska kerfið. Jógafræðin opna fyrir okkur heim þar sem hugur og líkami vinna saman til að finna jafnvægi og vellíðan. Í gegnum jógaæfingar, hugleiðslur, möntrur, öndunaræfingar og slökun erum við að vinna með parasympatíska taugakerfið án þess kannski að við gerum okkur grein fyrir því. Núvitundaræfingar hjálpa okkur svo að staldra meðvitað við og gera okkur grein fyrir því sem er að gerast innra með okkur, gera okkur ennfrekar meðviðuð um okkur sjálf og umhverfið okkar.
Allt þetta vinnur vel saman þegar við ætlum að fara að vinna með streitueinkenni og streituvalda í okkar lífi. Árangurinn er oft ánægjulegra líf með meiri tilgangi, meiri vitund um hugsanir, tilfinningar og viðbrögð ásamt meiri skilningi á sjálfum sér og öðrum. Að vakna til vitundar er fyrsta skrefið í að takast á við það sem er í gangi í okkar lífi svo við getum brugðist við því af yfirvegum í stað þess að bregðast stöðugt við ómeðvitað.
Hugrún Linda