Markþjálfun

Markþjálfun er aðferð til að bæta hæfileika og árangur og auka persónulegan þroska.

Markþjálfun er markviss leið þar sem einstaklingum er hjálpað að skoða sjálfan sig og umhverfið sitt, setja sér markmið, búa til aðgerðarplön og framkvæma, fylgjast með sjálfum sér og endurmeta stöðugt frammistöðuna með það að leiðarljósi að ná betri árangri og til að ná þeim markmiðum sem sett eru.

Hlutverk markþjálfans er að styðja við framgang ferilsins og leiðbeina einstaklingnum í gegnum ferlið.

Fagleg markþjálfun byggir á jafningjasambandi einstaklings og markþjálfa. Hún snýst um að hlúa að einstaklingi og styðja hann í samfelldu lærdómsferli og persónulegum þroska. Ferlið snýst meira um að spyrja réttu spurninganna frekar en að segja fólki hvað það á að gera. Ferlið gerir ráð fyrir að einstaklingur sé sjálfstæður, geti byggt á eigin lífsreynslu og hafi þekkingu til að standa á sínu. Hann hefur viljann til að læra og er tilbúinn til að takast á við sín mál. Góður markþjálfi finnur út hvað drífur einstakling áfram, fær hann til að uppgötva hindranir og hjálpar til við að greina hugsanir í undirmeðvitundinni.

Markþjálfi hvetur til þess að horft sé á hlutina í öðru og jákvæðara ljósi og að mynduð séu tækifæri og möguleikar út frá aðstæðum sem áður fyrr hefðu valdið vonbrigðum.

Aðferðarfræði markþjálfunar fer einkar vel saman með hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði og nýtist vel í vinnu með fólki sem vill blómstra og velta fyrir sér hvað það er sem skiptir í raun og veru máli í þeirra lífi. Markþjálfun nýtur góðs af jákvæðri sálfræði í gegnum kenningar og gagnreyndar rannsóknir sem jákvæða sálfræðin býr að. Markþjálfunaraðferðin aftur á móti er góð leið til að koma allri þeirri þekkingu sem jákvæða sálfræðin býr yfir í form sem nýtist einstaklingum.

Markþjálfun með nálgun jákvæðrar sálfræði (e. positive psychology coaching- PPC) á því rætur sínar að rekja til vísindalegrar nálgunar á að aðstoða fólk við að auka vellíðan, finna og nýta styrkleika sína, auka árangur og ná markmiðum í samræmi við gildi sín, vonir og væntingar. Áður fyrr gengu sálfræðingar oftast út frá því að vinnu þeirra hafi verið lokið þegar skjólstæðingur var laus við sálræna erfiðleika og vandamál en í PPC markþjálfun er litið á að þá sé vinnan aðeins hálfnuð. Það er hægt að komast yfir núllpunktinn og ná meiri fullnægju og auka vellíðan ennfrekar.

Markþjálfun með nálgun jákvæðrar sálfræði (PPC) lítur á einstakling sem sjálfstæðan og vinnur með styrkleika hans, jákvæða hegðun og tilgang. PPC hefur sterka tengingu við aðrar nálganir í sálfræðinni eins og mannúðarsálfræðina og hafa kenningar meðal annars frá Carl Rogers og Abraham Maslow sett svip sinn á markþjálfunaraðferðina. Hugmyndir Maslows má nýta sem tæki í markþjálfun til að skilja sjálfan sig, þarfir, þrár og langanir. Einnig eru hugmyndir Maslows notaðar til að fá fólk til að hugsa um einstakar upplifanir í lífinu. Þegar fólki finnst það hafa verið metið að verðleikum. Þegar því hefur liðið vel og finnst það vera fullt orku, þegar það er skapandi og nýtir hæfileika sína og möguleika til fullnustu. Þegar það hefur verið eitt með sjálfum sér og fundið frið og fullnægju í vinnu eða einkalífi. Það geta komið tímar sem minningar um einstaka upplifun geta kallað fram löngun og möguleika til að finna þessa tilfinningu aftur og vita að hún er möguleg. Eins koma hugmyndir Rogers um persónumiðaða nálgun sterkt fram í markþjálfun, að koma fram við einstaklinginn af virðingu, treysta innsæi hans um hvað sé honum fyrir bestu og að leyfa honum að taka forystuna í því að móta tilgang og stefnu markþjálfunarferilsins.

Hugræn atferlismeðferð og aðrar svipaðar sálfræðimeðferðir hafa einnig áhrif á PPC, þessar aðferðir leggja áherslu á að finna hugrænar leiðir til að ná tökum á málefnum. Þær leggja áherslu á að yfirstíga hindranir í nútíð og framtíð og leggja áherslu á að yfirfæra þekkinguna strax á viðfangsefni til að finna út hvað virkar best.

Hugrún Linda Guðmundsdóttir

Félagsráðgjafi MA, markþjálfi og núvitundarkennari

Hugrún er félagsráðgjafi MA með starfsréttindi frá Landlækni. Hugrún hefur sérhæft sig í jákvæðri sálfræði, markþjálfun, streitustjórnun, núvitund og hugleiðslu.

Þjónusta

Oft virðist lífið taka af manni völdin og maður fer að upplifa það að vera á sjálfstýringu flesta daga. Fólk lendir líka í ýmsum lífskreppum. Aðrir vilja efla vellíðan og vaxa í lífi og starfi án þess að eitthvað mikið sé að.

Shopping Cart
Scroll to Top