Streita – Kulnun – Örmögnun

Streita getur verið tvíþætt. Það er heilbrigt að upplifa streitu og streita nýtist okkur oft á tíðum vel til að standa okkur í þeim aðstæðum sem við erum í.

Aftur á móti er streita orðin óheilbrigð þegar álagið er orðið það mikið að það er farið að hafa áhrif á líðan okkar til lengri tíma og daglega virkni. Því fylgir oft kvíði, depurð og frestun á verkefnum, svefnleysi og almenn vanlíðan.

Það eru bæði ytri og innri þættir sem hafa áhrif á að við finnum fyrir streitu. Ytri þættir eru til dæmis aðstæður okkar í lífinu, mataræði, hreyfing, svefn og þær hættur og ógnanir sem við búum við dagsdaglega. Innri þættir sem stjórna því hvort við upplifum streitu eru til dæmis hvernig við bregðumst við aðstæðum okkar, hvort við búum yfir þrautseigju til að komast yfir erfiðleika, hvort við náum að hafa stjórn á aðstæðum og hvort við náum að sætta okkur við hlutina eins og þeir eru.

Streita er undirliggjandi orsakaþáttur í mörgum sjúkdómum. Hún getur birst í mismunandi myndum og er stundum svo samofin tilverunni að við tökum jafnvel ekki eftir henni fyrr en hún er farin að valda vandamálum. Langvarandi streita getur leitt til ástands í líkamanum sem getur orsakað ýmsa sjúkdóma og ónæmiskerfið verður almennt veikara.

Dæmi um einkenni streitu getur til dæmis verið ör hjartsláttur, hjartsláttartruflanir, örari öndun, hækkaður blóðþrýstingur, magaverkir og niðurgangur, tíð þvaglát, breyting á þyngd, verkir, aukin veikindi, einbeitingaskortur, minniskerðing, óskipulag, pirringur, þreyta, kyndeyfð, svefntruflanir, kvíði og þunglyndi.

Þessi einkenni geta verið til staðar í langan tíma, jafnvel í mörg ár en geta að lokum leitt til skyndilegrar versnunar með mikilli vanlíðan og skerðingu á vinnufærni. Þá er oft talað um sjúklega streitu eða kulnun (burnout). Kulnun getur verið ansi erfitt ástand sem lýsir sér meðal annars með hamlandi ofurþreytu, skorti á úthaldi, skertri einbeitingu og tilfinningalegu ójafnvægi.

Það er ýmislegt sem þarf að huga að þegar viðkemur streitu. Við þurfum að vera meðvituð um streituvaldana í umhverfinu okkar, við þurfum að vera meðvituð um okkur sjálf, hvernig við bregðumst við og hvernig okkur líður.

Þar sem álag og streita er hluti af lífinu þá er mikilvægt að kunna leiðir til að varna því að illa fari. Við þurfum að huga að almennri heilsueflingu og forvörnum eins og að gæta þess að sofa vel, nærast og stunda einhverja hreyfingu. Við þurfum að huga að samspili hugar og líkama og stunda einhverja hugarþjálfun eins og hugleiðslu eða núvitund. Ef við gætum að jafnvægi streitu og slökunar í daglegu lífi þá getur líkaminn höndlað álag betur.

Ef við erum komin í ástand sem gæti kallast sjúkleg streita eða kulnun (burnout) þá þarf að huga sérstaklega að þessum grunnþörfum, svefni, næringu og hreyfingu ásamt því að leita sér stuðnings og fræðslu. Eins er mikilvægt í þessu ástandi að ná djúpri slökun og efla heilastarfsemina eftir bestu getu. Mikilvægt er í þessu ástandi að gefa sér tíma til að vinna að þessum þáttum hægt og rólega.

Hugrún Linda

Hugrún Linda Guðmundsdóttir

Félagsráðgjafi MA, markþjálfi og núvitundarkennari

Hugrún er félagsráðgjafi MA með starfsréttindi frá Landlækni. Hugrún hefur sérhæft sig í jákvæðri sálfræði, markþjálfun, streitustjórnun, núvitund og hugleiðslu.

Verkfærakistan

Í verkfærakistunni er að finna greinar sem innihalda ýmis bjargráð sem geta hjálpað til við að takast á við þær áskoranir sem lífið býður uppá.

Shopping Cart
Scroll to Top