Öndun

Við lifum ekki lengi án þess að fá súrefni. Súrefni er frumþörfin okkar og okkar helsta orka eða Prana, sjálf lífsorkan. Lífsorkuna getum við því aukið með öndun. Til forna var athygli jóganna meiri á öndunina sjálfa heldur en æfingarnar og með réttu má segja að við komumst ekki langt án þess að anda. Að læra að anda inn meiri lífsorku eru fræði sem eru vel þess virði að kynna sér.

Hver fruma líkamans er háð súrefni og lifir ekki lengur en fimm mínútur án þess. Ef við aftur á móti öndum mjög grunnt eru frumur að fá mjög takmarkað súrefni og rétt hafa það af að lifa. Með því að auka og víkka út öndun erum við að hleypa súrefni og lífsorku í meira magni til frumanna. Súrefnisflæði líkamans hefur áhrif á allan líkamann og þekkt er að þeir sem eru með lungnasjúkdóma þjást oft af öðrum kvillum bæði andlegum og líkamlegum. Heilafrumur sem ekki fá nægilegt súrefni upplifa til dæmis á endanum mikla andlega streitu og ójafnvægi í tilfinningum og hugsunum.

Pranayama eða öndunartækni eru kraftmiklar og áhrifaríkar æfingar sem hafa áhrif á heilastarfsemina. Svæði í heilanum þar sem margar taugar koma saman er ástæðan fyrir því að öndunin hefur svo mikil áhrif. Kerfin okkar eru öll tengd og taugakerfið og öndunarfærakerfið hafa sínar tengingar sem hjálpa til dæmis við að draga úr verkjum, reiði og ótta.

Margt í þessum fræðum er okkur til að byrja með algerlega óskiljanlegt og oft á tíðum flóknar lífeðlisfræðilegar útskýringar sem ekki verður farið nánar út í hér. Aftur á móti sýna rannsóknir svo að ekki verður um villst að öndunartækni og æfingar hafa mikil áhrif bæði á andlega og líkamlega líðan og má þar nefna rannsóknir á Sudarshan kriyunni sem er öndunartækniæfing sem bæði Harvard og fleiri virtar stofnanir eru farnar að nefna sérstaklega sem aðferð til að meðhöndla streitueinkenni. Rannsóknir á þessari einu æfingu sýna fram á mikla minnkum á Cortisol magni í líkamanum sem er streituhormón. Æfingin dregur úr kvíða og þunglyndiseinkennum, eykur fókus og heilavirkni og eflir ró og yfirvegun í streituvaldandi aðstæðum. Rannsóknir sýna betri svefn, minni einkenni áfallastreitu ásamt því að hafa á ýmsan hátt góð áhrif á andlega og líkamlega þætti.

Hugrún Linda

Hugrún Linda Guðmundsdóttir

Félagsráðgjafi MA, markþjálfi og núvitundarkennari

Hugrún er félagsráðgjafi MA með starfsréttindi frá Landlækni. Hugrún hefur sérhæft sig í jákvæðri sálfræði, markþjálfun, streitustjórnun, núvitund og hugleiðslu.

Verkfærakistan

Í verkfærakistunni er að finna greinar sem innihalda ýmis bjargráð sem geta hjálpað til við að takast á við þær áskoranir sem lífið býður uppá.

Shopping Cart
Scroll to Top