Markþjálfun

Aðferðarfræði markþjálfunar fer einkar vel saman með núvitund og hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði og nýtist vel í vinnu með fólki sem vill blómstra og velta fyrir sér hvað það er sem skiptir í raun og veru máli í þeirra lífi.

Markþjálfun nýtur góðs af jákvæðri sálfræði í gegnum kenningar og gagnreyndar rannsóknir.

Markþjálfunaraðferðin aftur á móti er góð leið til að koma allri þeirri þekkingu sem jákvæða sálfræðin býr yfir í form sem nýtist einstaklingum. Markþjálfun með nálgun jákvæðrar sálfræði (positive psychology coaching – PPC) á rætur sínar að rekja til vísindalegrar nálgunar á að aðstoða fólk við að auka vellíðan, finna og nýta styrkleika sína, auka árangur og ná markmiðum í samræmi við gildi sín, styrkleika, vonir og væntingar.

Fyrst er staldrað við og lífið skoðað sem heild, hugarfar, hugsana- og hegðunarmynstur er skoðað. Fólk gerir sér grein fyrir hvaða breytingar er hægt að gera og hverju er ekki hægt að breyta. Aðgerðir eru síðan mótaðar sem stuðla að jákvæðum breytingum og þeim fylgt eftir. Oft á tíðum breytum við ekki aðstæðum okkar en þá getur markmiðið verið að breyta hugarfarinu gagnvart aðstæðunum og efla þrautseigju til að takast á við það sem lífið býður okkur upp á. Í ferlinu er lögð áhersla á leiðir til að komast yfir hindranir til að hver og einn geti blómstrað í sínu lífi, upplifað sátt, jafnvægi og vellíðan.

Hlutverk markþjálfans er að styðja við framgang ferilsins og leiðbeina einstaklinginn í gegnum ferlið. Fagleg markþjálfun byggir á jafningjasambandi einstaklings og markþjálfa. Hún snýst um að hlúa að einstaklingi og styðja hann í samfelldu lærdómsferli og persónulegum þroska. Ferlið snýst meira um að spyrja réttu spurninganna frekar en að segja fólki hvað það á að gera. Góður markþjálfi finnur út hvað drífur einstakling áfram, fær hann til að uppgötva hindranir og hjálpar til við að greina hugsanir í undirmeðvitundinni. Markþjálfi hvetur til þess að horft sé á hlutina í öðru og jákvæðara ljósi og að mynduð séu tækifæri og möguleikar út frá aðstæðum sem áður fyrr hefðu valdið vonbrigðum.

Hugrún Linda

Hugrún Linda Guðmundsdóttir

Félagsráðgjafi MA, markþjálfi og núvitundarkennari

Hugrún er félagsráðgjafi MA með starfsréttindi frá Landlækni. Hugrún hefur sérhæft sig í jákvæðri sálfræði, markþjálfun, streitustjórnun, núvitund og hugleiðslu.

Verkfærakistan

Í verkfærakistunni er að finna greinar sem innihalda ýmis bjargráð sem geta hjálpað til við að takast á við þær áskoranir sem lífið býður uppá.

Shopping Cart
Scroll to Top