Handleiðsla og streitustjórnun

Streitustjórnun og handleiðsla – forvarnir fyrir  fólk í álagstörfum

Hugrún Linda Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi MA. Diploma í handleiðslu, jákvæðri sálfræði og mannauðsstjórnun.

Álag í starfi birtist víða en það eru ýmsir þættir sem vega þyngra en aðrir og mismunandi eftir stéttum. Fólk er líka misvel undirbúið til að takast á við álag. Stjórnendur, fólk í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og kennslu og aðrir sem eru í miklum samskiptum upplifa oft á tíðum mikið álag. Þetta fólk er oft drifið áfram af löngun til að hafa jákvæð áhrif og stuðla að betri líðan og velferð annarra. Slík störf eru bæði gefandi og krefjandi en starfsfólk mætir gjarnan miklu álagi, flóknum verkefnum og takmörkuðum úrræðum. Þegar kröfur umhverfisins fara fram úr þeim björgum sem starfsfólk hefur yfir að ráða, getur það leitt til streitu, kulnunar og jafnvel brotthvarfs úr starfi. Þess vegna er mikilvægt að starfsfólk hafi aðgang að úrræðum sem styðja við vellíðan þess, svo sem faglegri handleiðslu, stuðningskerfum og aðferðum til streitustjórnunar. Einnig skiptir máli að vinnustaðir og stjórnendur leggi sitt af mörkum til að skapa heilsueflandi og hvetjandi starfsumhverfi þar sem starfsfólk fær stuðning til að vaxa og dafna í starfi.

Streita og viðbrögð líkamans

Streita er náttúrulegt og lífeðlisfræðilegt viðbragð líkamans við þeim kröfum eða áskorunum sem við tökumst á við. Hún virkjast í gegnum „fight or flight kerfið“ – „berjast eða flýja“ kerfi líkamans, þar sem adrenalín og kortisól flæða um líkamann. Áhrifin geta komið fram á ýmsan hátt eins og með hraðari hjartslætti, grynnri og hraðari öndun, vöðvaspennu og meltingaóþægindum. Þetta viðbragð getur verið gagnlegt til skamms tíma og hjálpað okkur að takast á við bráðavanda. En í  nútímasamfélagi virkjast þetta viðbragð sífellt oftar vegna tímaþrengsla, álags, erfiðra samskipta og fjölskylduábyrgðar, svo eitthvað sé nefnt, án þess að við fáum nægjanlegt rými til að jafna okkur. Krónísk streita verður þannig oftast til vegna stöðugra álagspunkta. Þessir álagspunktar og daglegar kröfur ásamt innri streituvöldum verða svo að langvarandi álagi. Eins má ekki gleyma streituvöldum eins og áföllum og reynslu sem við berum með okkur frá æsku og uppeldi sem gera okkur viðkvæmari fyrir og geta haft djúp áhrif á líðan okkar. Munum samt að streita er ekki alltaf neikvæð. Jákvæð streita getur aukið einbeitingu, verið hvetjandi og hjálpað okkur að ná markmiðum

Það er því mikilvægt að skilja streitu sem fjölbreytt og margslungið fyrirbæri og læra að þekkja bæði merki hennar og uppruna. Sýnt hefur verið fram á að langvarandi og stöðug streita án hvíldar á milli getur leitt af sér alvarlegt ástand. Þegar streita er ekki meðhöndluð á fullnægjandi hátt getur það haft alvarleg áhrif á heilsu, starfsgetu og líðan, leitt af sér streitutengda sjúkdóma og átt þátt í örmögnun og kulnun.   

Vinnustreita

Vinnustreita er skilgreind sem skaðleg líkamleg og andleg viðbrögð sem koma fram þegar kröfur vinnunnar fara fram úr getu einstaklings til að takast á við þær. Þetta ástand skapast oft af samspili margra þátta, þar á meðal of mikils vinnuálags, óskýrra hlutverka, óstöðugleika í vinnu, eða lélegs stuðnings frá vinnufélögum eða stjórnendum. Vinnustreita getur komið fram þegar fólk finnur fyrir ósamræmi milli væntinga, ábyrgðar og þeirra auðlinda sem það hefur til að sinna verkefnum sínum. Langvarandi vinnustreita hefur áhrif á heilsufar og getur meðal annars leitt til örmögnunar og kulnunar. Vinnustreitu fylgja yfirleitt meiri veikindafjarvistir, starfsmannavelta er meiri, þjónusta verður lélegri og almennt minni starfsánægja.

Kulnun

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur nýlega skilgreint kulnun sem heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað og ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á.

Einkenni kulnunar eru á þrem víddum:

1) Orkuleysi eða örmögnun

2) Andleg fjarvera í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað

3) Minni afköst í vinnu.

 Samkvæmt þessu vísar kulnun til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að vera nýtt til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins. Núna er þetta ekki eingöngu skilgreint ástand sem einstaklingurinn einn og sér ber ábyrgð á heldur einnig vinnustaðurinn og stjórnendur.

Það er reyndar erfitt að sjá fyrir sér að kulnun sé eingöngu tengd atvinnu þar sem reynslan sýnir að oftast eru þessir þættir flóknari en svo að það sé eingöngu vinnan sem skapar þetta ástand. Mögulega er þá verið að rugla saman örmögnunarástandi og sjúklegri streitu við kulnun þar sem aðrir þættir lífsins eða samspil einkalífs og vinnu geta orsakað örmögnunarástand.

Christina Maslach hefur verið í fararbroddi rannsókna á kulnun í starfi (e. burnout). Hún er ein af höfundum Maslach Burnout Inventory (MBI), sem hefur verið mest notaða mælitækið til að greina kulnun. Í framhaldi af umfangsmiklum rannsóknum sínum þróaði hún ásamt öðrum líkan sem nefnist Areas of Worklife Model.

Þetta líkan lýsir sex meginþáttum í vinnuumhverfinu sem hafa afgerandi áhrif á vellíðan starfsmanna og eru lykilatriði í því hvort fólk dafni í starfi eða þrói með sér kulnun. Kulnun er samkvæmt Maslach ekki eingöngu persónulegt vandamál einstaklingsins, heldur samspil einstaklings og vinnuumhverfis.

Þessi sex svið eru samkvæmt Maslach:

Vinnuálag

Þegar vinnuálag er meira en starfsmaður ræður við yfir langan tíma og hann nær ekki að jafna sig á milli verkefna, leiðir það til orkuleysis og tilfinningalegrar örmögnunar. Viðvarandi ofálag dregur úr getu fólks til að takast á við kröfur vinnunnar á árangursríkan hátt.

Stjórn og áhrif

Þetta snýst um hversu mikið vald og áhrif starfsmaður hefur á störf sín. Ef fólk hefur lítið svigrúm til ákvarðanatöku eða ekki tækifæri til að nýta hæfileika sína, getur það leitt til vanmáttarkenndar og lélegrar þátttöku.

Viðurkenning og umbun

Fólk þarfnast ekki aðeins fjárhagslegrar umbunar heldur einnig félagslegrar viðurkenningar og tilfinningalegrar umbunar. Skortur á hrósi, stuðningi eða sanngjarnri umbun getur leitt til vonbrigða og minnkað starfsánægju.

Samskipti og samfélag

Góð samskipti og traust í vinnuumhverfi eru lykilatriði fyrir vellíðan. Þegar samskiptin einkennast af togstreitu, einangrun eða skorti á stuðningi aukast líkur á kulnun. Samkennd, virðing og jákvæð menning geta dregið úr álagi.

Sanngirni

Ef starfsfólk upplifir ósanngjarna meðferð, t.d. í tengslum við stöðuhækkun, laun eða ákvarðanatöku, getur það valdið gremju og vanlíðan. Sanngirni í vinnustaðamenningu skiptir miklu fyrir traust og trú á kerfið.

Gildi og tilgangur

Samræmi á milli persónulegra gilda starfsmanns og þeirra sem vinnustaðurinn stendur fyrir er mikilvægt. Ef starfsfólk upplifir að það þurfi að vinna gegn sínum eigin gildum í starfi getur það leitt til siðferðilegrar togstreitu og kulnunar.

Líkan Maslach dregur athyglina frá einstaklingsmiðuðum úrræðum yfir í skipulagslegar og félagslegar lausnir. Það leggur áherslu á að til að fyrirbyggja kulnun þurfi að huga að vinnuumhverfinu í heild en ekki einungis að einblína á starfsmanninn. Með því að skoða þessi sex svið má greina hvar misræmi liggur á milli starfsfólks og starfsumhverfis og vinna markvisst að breytingum.

Ástand starfsfólks kemur svo að sjálfsögðu inn í jöfnuna. Hvernig hlúir starfsfólk að sér, varðandi andlega og líkamlega heilsu, lífstíl, svefn og endurheimt. Persónueinkenni skipta máli þegar kemur að streituþoli, lífsviðburðir, félagslegur stuðningur og almenn hæfni til að bregðast við streituvöldum.

Streitustjórnun og seigla

Til að bregðast við streitu þarf að þróa með sér færni í streitustjórnun og efla seiglu. Streitustjórnun felst meðal annars í því að greina streituvalda, streitumerki, þekkja eigin viðbrögð og nota bjargráð.

Ein áhrifarík nálgun við streitustjórnun og þjálfun seiglu (e. resilience) er SMART (Stress Management and Resiliency Training) sem þróuð hefur verið af Benson-Henry Institute for Mind Body Medicine við Massachusetts General Hospital. Nálgunin byggir á vísindalega studdum aðferðum sem sameina innsýn úr læknisfræði, sálfræði og hugrænum atferlisfræðum ásamt fornum aðferðum hugleiðslu og núvitundar.

SMART er hagnýt og fjölþætt aðferð sem miðar að því að styrkja einstaklinga til að minnka skaðleg áhrif streitu, stuðla að betri líðan og efla innri seiglu gagnvart áskorunum lífsins.

SMART byggir á kenningum Dr. Herbert Benson, frumkvöðuls á sviði læknisfræðilegrar tengingar huga og líkama a (e. mind-body medicine). Hann sýndi fram á að hægt væri að kalla fram svokallað slökunarviðbragð (e. relaxation response) – lífeðlisfræðilegt ástand sem vinnur gegn streituviðbragðinu og stuðlar að jafnvægi í taugakerfinu.

SMART felur í sér heildræna nálgun og er sambland margra þátta. Kenndar eru daglegar æfingar til að kalla fram slökunarviðbragð, s.s. öndun, hugleiðsla, jóga og núvitund; Hugræn endurskipulaging, þar sem unnið er með viðhorf, hugsanamynstur og sjálfstal til að byggja upp jákvæðari og raunhæfari sýn á áskoranir; Seigluþjálfun, þar sem þátttakendur læra að greina styrkleika sína og þróa aðferðir til að takast á við erfiðleika; Lífstílstengdar breytingar, s.s. regluleg hreyfing, svefn, félagsleg tengsl og næring; Sjálfsvitund og merking í lífinu, þar sem þátttakendur fá tækifæri til að endurmeta gildi sín, tilgang og hvað veitir þeim orku og lífsgleði.

SMART hefur verið rannsakað í fjölda klínískra rannsókna, þar á meðal hjá fólki með langvinna sjúkdóma, starfsfólki í heilbrigðisgeiranum og fólki undir miklu álagi. Niðurstöður sýna að þátttakendur upplifa, minni streitueinkenni, auknar jákvæðar tilfinningar, bætt líkamlegt og andlegt jafnvægi, aukna sjálfsvitund og styrk til að takast á við álag.

SMART tengist því beint við hugmyndafræði seigluþjálfunar, þar sem markmiðið er ekki að forðast streitu, heldur að efla hæfileikann til að bregðast við henni með sveigjanleika, yfirvegun og sjálfsstyrk.

Fagleg handleiðsla

Ásamt streitustjórnun er fagleg handleiðsla lykilverkfæri í forvörnum gegn kulnun. Hún býður upp á rými til ígrundunar, úrvinnslu, sjálfsskoðunar og faglegs vaxtar. Samkvæmt Hawkins og McMahon sem eru þekktir fræðimenn á sviði faglegrar handleiðslu, felur handleiðsla í sér þrjá meginþætti: Þroska (aukna faglega hæfni); Bjargráð (stuðning og seiglu) og; Ábyrgð (tryggingu á fagmennsku og þjónustugæðum).

Handleiðsla veitir stuðning í faglegum ákvarðanatökum, skerpir mörk og eykur meðvitund um faglegt hlutverk. Hún dregur úr einangrun, eflir starfsgæði, stuðlar að heilbrigðum samskiptum og skapar rými til að vinna með siðferðileg álitamál og tilfinningaleg áhrif erfiðra mála.

Fagleg handleiðsla byggir á handleiðslulíkönum og eru þau nauðsynleg verkfæri í kistu faglegra handleiðara. Þau byggja rammann utan um samtalið sem á sér stað á milli handleiðara og handleiðsluþega. Í handleiðslu er unnið með málefni sem handleiðsluþegi kemur með hverju sinni, þannig er samtalið alltaf á forsendum handleiðsluþegans og getur bæði tengst einkalífi og vinnu.  Stór þáttur í handleiðslu felst í því að skoða viðbrögð handleiðsluþegans við streitu og álagi. Greina streituvalda, streitumerki, finna bjargráð og fá stuðning í að vinna úr aðstæðum bæði persónulega og faglega. Inn í þetta ferli fléttast bakgrunnur handleiðsluþega, hvað hann ber með sér frá fyrri reynslu og hvernig það hefur áhrif á líf og starf í dag. Handleiðlsa er best nýtt sem langtímaferli en ekki krísustjórnun þó það sé nokkuð algengt.

Með langtímahandleiðslu og traustu sambandi við handleiðara eykst sjálfsvitund, sjálfsþekking og sjálfsefling í lífi og starfi. Hver handleiðari hefur svo sinn bakgrunn og sérhæfingu og notar mismunandi handleiðslulíkön þannig að oft er gott að skoða hverju sóst er eftir í handleiðslu.

Faglegir handleiðarar aðstoða líka fyrirtæki og stofnanir við að innleiða handleiðslukerfi sem er sérsniðið að þörfum vinnustaðarins. Í því felst að skoða stöðu og þarfir, skapa áhuga og þátttöku hjá starfsfólki og stjórnendum, setja ramma utan um handleiðslu, bæði hóp- og einstaklings handleiðslu eftir þörfum og fylgja svo ferlinu eftir. Inn í þetta getur svo komið fræðsla, endurmenntun og annað sem styður við heilsueflandi, árangursríkan og eftirsóttan vinnustað sem þjónar bæði starfsfólki og skjólstæðingum.

Forvarnir og ábyrgð

Of lengi hefur ábyrgðin vegna streitu og kulnunar verið lögð alfarið á herðar einstaklingsins. En rannsóknir Maslach, WHO og fleiri sýna að vinnuumhverfi skiptir sköpum. Forvarnir þurfa að vera bæði einstaklingsbundnar og kerfisbundnar.

Forvarnir felast í:

  • Skýrri stefnu um handleiðslu og streitustjórnun
  • Reglulegri fræðslu og endurmenntun
  • Rýni á vinnumenningu og hlutverkaskiptingu
  • Ábyrgð stjórnenda á vellíðan starfsfólks

Að hafa kerfi sem tryggir faglegan vöxt og sjálfsstyrkingu er lykill að árangri. Við þurfum samt alltaf að lokum að taka ábyrgð á okkar eigin vellíðan með því að setja mörk og „súrefnisgrímuna“ á okkur sjálf fyrst. 

Hugrún hefur sérhæft sig í streitustjórnun frá Harvard Medical School og Benson-Henry Institute for Mind Body Medicine og er menntuð sem faglegur handleiðari. Hugrún er með stofu hjá Heilsuvernd Ögurhvarfi og tekur þar á móti fólki bæði í viðtöl og á námskeið. Hún sinnir einnig hópum og stofnunum bæði einstaklingsmiðað og með fræðslu, námskeiðiðum, fyrirlestrum og þjálfun. 

Hugrún Linda Guðmundsdóttir – Félagsráðgjafi MA

Tímapantanir í síma 510-6500

Hugrún Linda Guðmundsdóttir

Félagsráðgjafi MA, markþjálfi og núvitundarkennari

Hugrún er félagsráðgjafi MA með starfsréttindi frá Landlækni. Hugrún hefur sérhæft sig í jákvæðri sálfræði, markþjálfun, streitustjórnun, núvitund og hugleiðslu.

Verkfærakistan

Í verkfærakistunni er að finna greinar sem innihalda ýmis bjargráð sem geta hjálpað til við að takast á við þær áskoranir sem lífið býður uppá.

Shopping Cart
Scroll to Top