Orðið núvitund (mindfulness) er eitt af þeim fyrirbærum sem við öll erum farin að heyra í kringum okkur en hvað er í raun og veru verið að meina með núvitund? Svarið er í sjálfu sér ekki einfalt en ég ætla að nefna nokkur atriði sem hugsanlega verða til þess að skilja betur hvers vegna við ættum að minnsta kosti að kynna okkur þetta fyrirbæri.
Það er hægt að iðka núvitund alls staðar. Það er útbreiddur miskilningur að núvitund þurfi að iðka sitjandi eða liggjandi í einrúmi. Það er gott og gilt að æfa núvitundina þannig en tilgangurinn með að æfa sig í núvitund er að lokum sá að taka hana með sér inn í daglegt líf.
En hvernig förum við með núvitund inn í daglegt líf? Með því að vera með fulla athygli á því sem við erum að gera þá stundina. Að hugurinn og athyglin sé á sama stað og líkaminn. Að hugur og líkami séu tengdir og vinni samhliða.
Það er svo eðlilegt fyrir okkur að setja á sjálfsstýringuna. Þið kannist örugglega öll við sjálfstýringuna, þegar við tökum varla eftir því hvað við gerum af því að það er orðinn svo mikill vani. Hugurinn sveimar fram og til baka, í fortíð og framtíð. Hann er til dæmis að hafa áhyggjur eða plana fram í tímann eða hugsa til baka og velta sér upp úr liðnum atburðum. Hann er að leysa vinnutengd verkefni jafnvel þegar þú ert kominn heim og ert að hjálpa börnunum að læra. Svo hrekkur þú við þegar þau spyrja þig spurningar og uppgötvar að þú heyrðir ekkert hvað var í gangi. Eða þegar við tökum ekki eftir því fyrr en við erum búin að borða allt súkkulaðistykkið eða að fá okkur eitthvað sem við ætluðum í raun ekki að fá okkur. Þetta er sjálfstýring! Við tökum ekki eftir því sem við gerum af því að við erum ekki meðvituð um stað og stund. Kannast þú við eitthvað þessu líkt hjá þér?
Við þessar aðstæður má segja að maður sé illa tengdur við það sem er að gerast í kringum sig af því hugurinn er upptekin við eitthvað allt annað. Svona aðstæður skapa mikla streitu og í vissum tilfellum hættu þar sem skortur á einbeitingu getur skipt sköpum.
Núvitund er fyrst og fremst athyglisþjálfun. Núvitundarþjálfun snýst ekki um slökun, en slökun getur þó fylgt í kjölfarið þar sem hugurinn fær tækifæri á að einbeita sér að einu í einu og nær þannig fram innri ró.
Núvitundarþjálfun hjálpar til við að:
- Staldra við (Stoppa)
- Taka eftir (Hvað er að gerast)
- Bregðast við meðvitað (Að bregðast EKKI við sjálfvirkt)
Í núvitundinni erum við að læra að staldra við. Við erum að taka eftir! Við erum að taka eftir því hvernig okkur líður og hvað við erum að finna fyrir. Við erum að skoða hugsanir okkar og tilfinningar meðvitað án þess að dæma þær.
Með núvitundarþjálfun erum við líka að læra að skoða umhverfið okkar á nýjan hátt og veita daglegum þáttum í lífinu meiri athygli sem verður til þess að við náum að njóta betur dagsins í dag frekar en að festast í hugsunum um fortíð eða framtíð.
Núvitundarþjálfun felur ekki í sér að reyna að ná neinum markmiðum eða komast í eitthvað ákveðið hugarástand, heldur er tilgangurinn einfaldlega sá að vera vakandi fyrir því sem þú ert að finna fyrir á líðandi stundu – og leyfa því að vera eins og það er og að leyfa þér að vera eins og þú ert!
Í stuttu máli hafa rannsóknir sýnt að núvitundarþjálfun styður við aukna vellíðan, er vörn gegn streitu, kvíða og þunglyndi. Hjálpar gegn erfiðum tilfinningum og hugsanaflækjum. Hjálpar til við að upplifa lífið með vakandi vitund í stað þess að lifa í sjálfstýringu og gömlu hugsanamynstri. Aukaverkanir eru rólegri hugur, yfirvegaðri ákvarðanir og meiri sátt við lífið og tilveruna þrátt fyrir ýmislegt sem lífið býður okkur upp á.
Hugrún Linda