Hefur þú velt fyrir þér hvað það er sem skiptir þig mestu máli í lífinu? Hefur þú velt því fyrir þér hver ber ábyrgð á hamingju þinni og vellíðan, heilsu þinni og hugarfari?
Oft erum við að bíða eftir að eitthvað verði betra eða eitthvað breytist og lagist til að við getum orðið hamingjusöm eða okkur fari að líða betur. Eða þá að við ætlum að hafa allt svo fullkomið þegar við förum í fríið eða á eftirlaunin, þá ætlum við aldeilis að njóta lífsins.
En oft virðist biðin löng, lífið ekki endilega auðvelt og vinnur ekki alltaf með okkur. Nútíminn er orðinn ansi streituvaldandi, álagið snýst um að standa sig í skóla, vinnu og einkalífi. Utanaðkomandi kröfur virðast endalausar og síast inn með auknum aðgangi að tækni eins og neti, tölvum og símum. Bæði er það óheftur aðgangur okkar að umheiminum sem og óheftur aðgangur umheimsins að okkur. Þetta á bæði við um börn og fullorðna. Við eigum erfitt með að setja okkur mörk, við viljum standa okkur vel, taka þátt í sem flestu og eigum erfitt með að forgangsraða því sem skiptir okkur mestu máli og er hjálplegast fyrir okkur. Svo bætast við veikindi, óvæntir atburðir og jafnvel áföll. Oft á tíðum virkar þetta ástand eins og við höfum ekki stjórn á neinu. Þegar þangað er komið förum við sennilega að finna fyrir streitueinkennum, kvíða, depurð og jafnvel einkennum kulnunar eða örmögnunar. Við bregðumst oft við ástandinu með óhjálplegum leiðum sem viðhalda ástandinu og komumst ekki út úr vítahringnum.
Fyrir utan daglegar áskoranir ber hvert þroskatímabil í lífinu með sér áskoranir, þegar við förum í gegnum barnæskuna, unglingsárin, fullorðinsárin og elliárin. Lífið er aldrei eins, við búum við stöðugar breytingar, áskoranir og kröfur! Okkar helstu mistök felast í því að halda að lífið verði alltaf eins eða að gera ráð fyrir að við getum haft stjórn á öllu í kringum okkur.
Hérna þurfum við einmitt að staldra við. Hverju höfum við stjórn á og hverju höfum við ekki stjórn á? Hvað er í okkar valdi að breyta og hverju getum við ekki breytt? Þegar við gerum okkur grein fyrir þessu þá getum við fyrst farið að vinna út frá ástandinu eins og það er í raun og veru og getum einblínt á það sem við höfum stjórn á. Eins er hjálplegt að huga að því hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á að lífið gangi vel og hvernig við getum aukið áhrif þessara þátta í okkar lífi?
Streita
Áður en að við snúum okkur að þeim þáttum sem hafa áhrif á að lífið gangi vel þarf aðeins að staldra við áhrif streitu á heilsu og vellíðan. En eins og staðan er í dag er það okkar helsta áskorun að bregðast við áhrifum streitu á líf okkar og heilsu. Streita getur verið undirliggjandi orsakaþáttur í mörgum sjúkdómum. Hún getur birst í mismunandi myndum og er stundum svo samofin tilverunni að við tökum jafnvel ekki eftir henni fyrr en hún er farin að valda vandamálum. Langvarandi streita getur leitt til ýmissa einkenna og haft mikil áhrif á okkur andlega, líkamlega og félagslega.
Þegar við erum í langvarandi streituástandi fer það meðal annars að hafa neikvæð áhrif á tilfinningar okkar og þær geta brotist fram á ýmsan hátt, eins og með reiði, skömm, sektarkennd, pirring, hræðslu, kvíða, óöryggi, öfund, leiða, þunglyndi, vonleysi og valdaleysi til að nefna eitthvað. Með því að dvelja í þessum tilfinningum erum við að viðhalda streituástandinu og gerum það oft með því að hugsa um aðstæður okkar í fortíðinni og því sem við höfum gengið í gegnum eða við dveljum í hugsunum um framtíðina og kveikjum á kvíðatilfinningum. Bara með hugsun getum við komið af stað atburðarrás sem kveikir á viðbrögðum sem eru oft eru ekki hjálpleg. Þegar við festumst í þessum vítahring, finnum við fyrir öryggisleysi og vanlíðan og byggjum oft á tíðum upp varnir í kringum okkur.
Að dvelja stöðugt í þessum vítahring gerir okkur minna meðvituð um allt sem er í kringum okkur, við sjáum ekki leiðirnar og lausnirnar sem hugsanlega eru þarna úti. Málið er að við höfum mun meiri áhrif á ástand okkar en við hugsanlega gerum okkur grein fyrir, með hugsunum okkar, vali okkar, hegðun, reynslu og tilfinningum. Það eru ekki endilega streituvaldarnir sjálfir sem hafa mestu áhrifin á okkur heldur hvernig við bregðumst við þeim. Það getur falist töluverð þjálfun í bregðast við aðstæðum á hjálplegan hátt, en hún er þess virði.
Að læra að staldra við
Oft á tíðum finnum við að hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera og vildum gjarnan að þeir væru öðruvísi, en þar sem daglegt amstur og vítahringur streituástands tekur sinn toll þá gefum við okkur ekki tækifæri til að staldra við og skoða hvað er í raun og veru að hafa áhrif á okkur. Ef þú finnur að þú vilt gera jákvæðar breytingar í þínu lífi þá er fyrsta skrefið að læra að staldra við.
Þá komum við að núvitundinni. Núvitundarþjálfun felst í því að læra að staldra við. Við erum að taka eftir! Við erum að taka eftir því hvernig okkur líður og hverju við erum að finna fyrir. Við erum að skoða hugsanir okkar og tilfinningar meðvitað án þess að dæma þær.
Með núvitundarþjálfun erum við líka að læra að skoða umhverfið okkar á nýjan hátt og veita daglegum þáttum í lífinu meiri athygli sem verður til þess að við náum að njóta betur dagsins í dag frekar en að að festast í hugsunum um fortíð eða framtíð. Þegar við erum orðin meðvitaðari eigum við líka auðveldara með að taka yfirvegaðar ákvarðanir sem styðja við heilsu okkar og vellíðan.
Núvitundarþjálfun hjálpar til við að:
- Staldra við (Stoppa)
- Taka eftir (Hvað er að gerast)
- Bregðast við meðvitað (Að bregðast EKKI við sjálfvirkt)
Það er svo eðlilegt fyrir okkur að setja á sjálfsstýringuna. Sjálfstýringin er vaninn okkar, við tökum ekki eftir því hvað við gerum, hvað við segjum eða hvernig við hegðum okkur þar sem hugsana- og hegðunarbrautir heilans eru svo vel smurðar. Við erum ekki meðvituð um stað og stund.
Með núvitundarþjálfun erum við að æfa okkur í því að geta brugðist við aðstæðum af ró og yfirvegun í stað þess að bregðast sjálfvirkt við. Við gerum það með því að æfa okkur í að vera meðvitaðri um hvar athygli okkar er. Þetta er þjálfun sem allir geta tileinkað sér.
Hamingja og vellíðan
Þegar við náum að staldra við og taka meðvitaðar ákvarðanir um jákvæðar breytingar í okkar lífi, þá er gott að hafa að leiðarljósi hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á að lífið gangi vel. Jákvæð sálfræði hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarið en þar er rannsóknarefnið einmitt þetta.
Jákvæða sálfræði má skilgreina sem nýlega vísindagrein innan sálfræðinnar sem byggir á rannsóknum á jákvæðum hliðum mannsinns og þeim þáttum sem hafa áhrif á að lífið gangi vel allt frá vöggu til grafar. Rannsóknirnar snúa að þáttum eins og styrkleikum, hamingju, ánægju og vellíðan og hvernig hægt er að auka áhrif þessara þátta og annarra sem skipta mestu máli í velsæld og velgengi í lífinu. Aðal markmið jákvæðrar sálfræði er að framkalla jákvæðar tilfinningar, þrautseigju, kraft og flæði. Hún dregur fram vellíðan og virkjar einstaklinginn til árangurs.
Þegar við verðum fyrir áföllum í lífinu þá oft á tíðum förum við að sjá hvað það er sem skiptir okkur verulegu máli og förum að forgangsraða öðruvísi. Með því að tileinka sér hagnýtar leiðir frá jákvæðri sálfræði er hægt að gera þessar breytingar án þess að eitthvað þurfi að koma upp á.
Jákvæð sálfræði er ekki „pollýönnufræði“ eða til að hámarka gleði og ánægju. Aðferðir jákvæðrar sálfræði eru oft notaðar til að styrkja fólk í erfiðleikum eins og að efla þrautseigju og vinna að jákvæðum breytingum í kjölfar áfalla.
Hvað er það sem skiptir í raun og veru máli?
Það sem hefur hvað helst áhrif á vellíðan fyrir utan grunnþarfir eins og svefn, næringu og hreyfingu eru þættir eins og félagsleg tengsl, hvernig við náum að skapa jákvæðar tilfinningar, að við höfum tilgang og hlutverk, náum að taka þátt í verkefnum sem næra okkur og náum árangri í því sem skiptir okkur máli.
Við þurfum að velta fyrir okkur gildunum okkar, hvað er það sem skiptir okkur mestu máli í lífinu? Hvað drífur okkur áfram? Hvaða lífsmáta kjósum við? Gildi eru eins og leiðarljós í lífinu, eitthvað sem við stöndum fyrir og förum eftir.
Við þurfum að læra að einblína á styrkleika okkar miklu fremur en veikleika. Það er alveg sama hvað við reynum að „laga okkur“ stærsti og mesti möguleikinn til að vaxa í lífinu er að einblína á það sem við erum góð í, eitthvað sem við höfum gaman af og gefur okkur orku og kraft. Þar spila inn í jákvæð karaktereinkenni og náttúrulegir hæfileikar. Við erum allt of góð í því að bera okkur saman við aðra og reyna að ná annarra manna markmiðum og hæfileikum í stað þess að þroska okkar eigin. Við berjum okkur svo niður fyrir að vera ekki eins og aðrir en gleymum að gefa okkar eigin hæfileikum og styrkleikum sess. Við þurfum að æfa okkur í að nýta það sem við höfum en ekki sækjast eftir því sem aðrir hafa. Þegar okkar eigin styrkleikar fá að njóta sín til fulls ættum við að upplifa okkur upp á okkar besta. Þegar við höfum tækifæri til að nota styrkleikana okkar reglulega eykur það sjálfstraust og bjartsýni, skapar innri hvatningu, eykur jákvæðar tilfinningar og er vörn gegn andlegri vanlíðan. Auk þess verður árangur yfirleitt betri, þrautseigja eykst og jafnvel er hægt að nýta styrkleikana til að skapa hugmyndir að stefnu í lífinu.
Félagsleg tengsl og samskipti eru stórir þættir í hamingju okkar og vellíðan. Að eiga í góðum, jákvæðum, uppbyggilegum samskiptum gerir okkur sterkari fyrir og eykur jákvæðar tilfinningar. Við þurfum að skoða hvaða fólk er í kringum okkur, hvernig áhrif þetta fólk hefur á okkur, hverjir næra mann og veita manni orku og hverjir draga úr manni orkuna. Við þurfum svo að hafa hugrekki til að gera breytingar og setja mörk ef samskipti eru ekki eins og við kjósum. Eins þurfum við að styrkja og næra þau sambönd sem skipta okkur verulegu máli. Rannsóknir hafa sýnt að á dánarbeði er þetta ofarlega á lista varðandi það sem fólk sér eftir í lífinu, að hafa ekki nýtt tímann með fólkinu sem það elskar. Annað stórt atriði í þeim rannsóknum er eftirsjáin að hafa ekki látið drauma sína rætast, þora að breyta, taka áhættur og standa með sjálfum sér.
Við höfum öll þörf fyrir að tilheyra, hafa hlutverk og finna tilgang með því sem við gerum í lífinu. Við viljum finna að við skiptum máli. Þegar við náum að vinna með og virkja styrkleikana okkar og standa með gildunum okkar þá náum við oft að finna drifkraftinn og neistann sem hjálpar okkur í rétta átt í lífinu. Við finnum að við erum að nota okkar innri möguleika og finnum okkar sanna sjálf.
Hindranir
Þegar við veltum fyrir okkur hvað hindrar okkur í að taka stjórn á eigin lífi og gera jákvæðar breytingar þá er það yfirleitt þessi tvö atriði; Í fyrsta lagi þá vitum við ekki hvað við viljum og í öðru lagi er það okkar eigin hugarfar. Ef við vitum ekki hvað við viljum höfum við ekkert að stefna að og þá er ólíklegt að jákvæðar breytingar eigi sér stað. Þetta er eins og að fara á veitingastað og segja þjóninum frá því hvað þú vilt ekki borða, sem er ekki sérlega hjálplegt. Það er alveg sama hvaða breytingar þig langar til að gera þá þarftu fyrst og fremst að sjá þær fyrir þér og skapa einhverja framtíðarsýn. Þá fyrst veistu hvert á að stefna og getur farið að búta niður leiðina að markmiðinu. Ef þú hefur ekki skýra sýn á hvað þú vilt fyrir sjálfa/n þig er hætta á að þú farir að fylgja öðrum og annarra manna væntingum og draumum.
Hugarfar
Hugarfarið er oft stærsta hindrunin. Hugarfarið hefur mikil áhrif á það hvernig við lifum lífinu. Sumir hafa þær hugmyndir að geta og gáfur séu eingöngu meðfæddar meðan aðrir sjá getu og gáfur eitthvað sem hægt er að þroska, þjálfa og auka. Í jákvæðri sálfræði er fjallað um gróskuhugarfar og festuhugarfar. Þeir sem búa yfir gróskuhugarfari ná yfirleitt að upplifa innihaldríkara líf meðan þeir sem eru fastir í festuhugarfarinu eiga erfiðara með að láta drauma sína rætast. Vanabundin hegðun og hugsun eykur ekki líkur á breytingum meðan það að hugsa út fyrir boxið þroskar hæfileika til breytinga. Oft þarf hugrekki til breytinga og þegar við viljum efla gróskuhugarfarið þurfum við að þjálfa hugrekkið til að takast á við áskoranir, ekki búa til verndað umhverfi í kringum okkur, gera eitthvað sem við erum hrædd við og þora að sækja í uppbyggilega gagnrýni.
Markþjálfun með nálgun jákvæðrar sálfræði
Aðferðarfræði markþjálfunar fer einkar vel saman með núvitund og hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði og nýtist vel í vinnu með fólki sem vill blómstra og velta fyrir sér hvað það er sem skiptir í raun og veru máli í þeirra lífi.
Markþjálfun nýtur góðs af jákvæðri sálfræði í gegnum kenningar og gagnreyndar rannsóknir. Markþjálfunaraðferðin aftur á móti er góð leið til að koma allri þeirri þekkingu sem jákvæða sálfræðin býr yfir í form sem nýtist einstaklingum. Markþjálfun með nálgun jákvæðrar sálfræði (positive psychology coaching – PPC) á rætur sínar að rekja til vísindalegrar nálgunar á að aðstoða fólk við að auka vellíðan, finna og nýta styrkleika sína, auka árangur og ná markmiðum í samræmi við gildi sín, styrkleika, vonir og væntingar.
Fyrst er staldrað við og lífið skoðað sem heild, hugarfar, hugsana- og hegðunarmynstur er skoðað. Fólk gerir sér grein fyrir hvaða breytingar er hægt að gera og hverju er ekki hægt að breyta. Aðgerðir eru síðan mótaðar sem stuðla að jákvæðum breytingum og þeim fylgt eftir. Oft á tíðum breytum við ekki aðstæðum okkar en þá getur markmiðið verið að breyta hugarfarinu gagnvart aðstæðunum og efla þrautseigju til að takast á við það sem lífið býður okkur upp á. Í ferlinu er lögð áhersla á leiðir til að komast yfir hindranir til að hver og einn geti blómstrað í sínu lífi, upplifað sátt, jafnvægi og vellíðan.
Hlutverk markþjálfans er að styðja við framgang ferilsins og leiðbeina einstaklinginn í gegnum ferlið. Fagleg markþjálfun byggir á jafningjasambandi einstaklings og markþjálfa. Hún snýst um að hlúa að einstaklingi og styðja hann í samfelldu lærdómsferli og persónulegum þroska. Ferlið snýst meira um að spyrja réttu spurninganna frekar en að segja fólki hvað það á að gera. Góður markþjálfi finnur út hvað drífur einstakling áfram, fær hann til að uppgötva hindranir og hjálpar til við að greina hugsanir í undirmeðvitundinni. Markþjálfi hvetur til þess að horft sé á hlutina í öðru og jákvæðara ljósi og að mynduð séu tækifæri og möguleikar út frá aðstæðum sem áður fyrr hefðu valdið vonbrigðum.
Að lokum
Vonandi ert þú bílstjórinn í eigin lífi og upplifir vellíðan og sátt við lífið og tilveruna. Ef ekki þá er það á þínu valdi að staldra við og skoða hvað er í gangi. Það er alltaf fyrsta skrefið að gera sér grein fyrir og þora að horfa á hlutina eins og þeir eru. Það eru til ýmis verkfæri og aðstoð sem hjálpa fólki að komast út úr hringiðu streitu og vana en það er þitt að sækjast eftir því og bera ábyrgð á þínu eigin lífi, þínu hugarfari og þinni vellíðan. Það er þitt val að taka stjórnina.
Hugrún Linda